Einelti

Einelti og annað ofbeldi er ekki liðið í Foldaskóla. Markmið skólans er að öllum líði vel og finni til öryggis. Áhersla er lögð á jákvæð samskipti, virðingu og samábyrgð.

Skilgreining á einelti
Einelti er endurtekið líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi, útilokun, útskúfun og áreiti sem skapar vanlíðan - þegar einn eða fleiri níðast á eða ráðast aftur og aftur á einstakling.
Varast ber að skilgreina alla misklíð eða stríðni sem einelti en vera samt vakandi fyrir því að það þróist ekki yfir í einelti. Stríðni og einelti er helst hægt að mæla út frá þeim afleiðingum sem það hefur fyrir þolanda en ekki út frá því sem aðrir sjá.
Andlegt ofbeldi getur meitt jafn mikið og líkamlegt þótt það sé ekki sjáanlegt.
Beint einelti er sýnilegt þ.e. ekki fer milli mála hvað gerist, t.d. orð og athafnir sem sjást og heyrast s.s. árásir, hótanir, særandi orð og aðdróttanir.
Óbeint einelti er dulið þ.e. ekki sýnilegt nema við eftirgrennslan t.d. skilja útundan,
hunsa, augngotur og látbragð.
Einnig er hægt að tala um líkamlegt, munnlegt og félagslegt einelti eftir birtingarformi
þess. Tíðni slíks eineltis fer nokkuð eftir aldri og kyni gerenda og þolenda.

Viðbrögð og vinnuferli starfsfólks við samskiptavanda og einelti
Ætíð skal brugðist strax við einelti eða grun um einelti.  Allir starfsmenn skólans skulu hafa afskipti af meintu eða augljósu einelti enda er slíkt ekki liðið í Foldaskóla.

Vinnuferli

1. Tilkynning
Vakni grunur um einelti skal tilkynna það tafarlaust til umsjónarkennara þess sem eineltið beinist að og skrá upplýsingarnar. Eyðublað 1

2. Upplýsingaöflun
Þegar tilkynning hefur borist umsjónarkennara aflar hann sér nánari upplýsinga um málið hjá kennurum, bekkjarfélögum og öðru starfsfólki skólans. Umsjónarkennari ræðir við þolanda og meintan geranda til að afla frekari upplýsingar og upplýsir jafnframt foreldra beggja aðila um gang mála. Umsjónarkennari skráir þessar upplýsingar. Eyðublað 2 og Eyðublað 3

3. Vinnuferli

 • Liggi ljóst fyrir að um einelti sé að ræða fer ákveðið vinnuferli af stað sem miðar að því að umsjónarkennari og deildarstjóri viðkomandi stigs/námsráðgjafi vinni saman að lausn málsins. Eyðublað 4 og Eyðublað 5.
 • Markmiðið er að finna leiðir í samráði við gerendur og þolendur til að öllum líði vel.
 • Umsjónarkennari skráir málið í Mentor, sýnilegt skólastjórnendum og umsjónar-kennara.
 • Umsjónarkennari málsaðila hefur samband við foreldra/forráðamenn og óskar eftir samvinnu og stuðningi þeirra.
 • Umsjónarkennari gerir öðrum kennurum og viðkomandi starfsmönnum grein fyrir málavöxtum í þeim tilgangi að tryggja öryggi og vellíðan þolanda.
 • Umsjónarkennari og deildarstjóri/námsráðgjafi ræða við þolanda og gerendur.
 • Þolandi er fullvissaður um að hann hafi stuðning starfsmanna skólans. Hann fær tækifæri til að lýsa framkomu, orðum/athöfnum gerenda og hvaða áhrif umrædd hegðun hafi haft á líðan hans. Hann mæti einatt skilningi á því að upplifun hans eigi fullan rétt á sér og fær leiðbeiningar um hvað hann geti gert svo sárin, sem hann hefur hlotið, grói sem fyrst. Hann ákveður, á eigin forsendum, hvenær hann er tilbúinn til að mæta gerendum.
 • Geranda er strax gefin skýr skilaboð um að einelti sé ekki liðið. Leitast er við að opna augu hans fyrir óásættanlegri framkomu í orðum og verki gagnvart þolanda, hvaða áhrif hún hafi haft á líðan hans og hvernig hann geti breytt til hins betra.
 • Fundað er með þolanda og forráðamönnum og einnig er fundað með geranda og forráðamönnum. Þegar óskað er eftir að foreldar komi á fund til að ræða hugsanlegt einelti ætti alltaf að upplýsa þá um hverjir verði á fundinum.
 • Foreldrar eru hvattir til að hafa einhvern með sér til halds og trausts.
 • Umsjónarkennari þolanda vinnur eineltismál sem tengjast út fyrir bekkinn með viðkomandi umsjónarkennara og deildarstjóra/námsráðgjafa.
 • Fundargerð er skráð og undirrituð af öllum fundarmönnum, fundargerð á að skila til eineltisteymis samdægurs og afrit sent fundarmönnum.

4. Eftirfylgni
Umsjónarkennari fylgir málinu eftir í samvinnu við deildarstjóra/námsráðgjafa með samtölum við þolanda og geranda/gerendur.  Foreldrar eru upplýstir um stöðu máls innan tveggja vikna og eru síðan í reglulegu sambandi. Eyðublað 6

5. Ef eineltið hættir ekki
Umsjónarkennari hefur samband við foreldra geranda og þolanda og lætur vita að eineltið hafi ekki hætt og því sé málinu vísað áfram til nemendaverndarráðs og eineltisteymis. Eyðublað 7
Málið er komið í hendur stjórnenda sem taka ákvörðun um framhaldið.

Forvarnir gegn einelti
Í Foldaskóla er lögð áhersla á að halda uppi öflugu forvarnastarfi sem beinist að því að stuðla að góðum félagsanda í bekkjum og byggja upp traust og samvinnu milli heimila og
skóla. Nauðsynlegt er að allir sem tengjast skólanum vinni saman, þ.e. starfsmenn, nemendur og forráðamenn þeirra.
Í skólanum er haldið uppi forvarnastarfi sem miðar að því að draga úr eða koma í veg fyrir einelti. Má þar nefna:

 • Uppbyggingarstefnuna sem miðar að því að kenna nemendum sjálfstjórn og sjálfsaga.
 • Eineltisáætlun er fyrir hendi og endurskoðuð reglulega.
 • Skýrar skólareglur.
 • Allir þurfa að vera meðvitaðir um afleiðingar eineltis og samtaka í því að koma í veg fyrir það.
 • Móttaka nýrra nemenda.
 • Skólapúlsinn er vefkönnunarkerfi þar sem nemendur eru spurðir um líðan, skólabrag
 • og viðhorf.  Könnunin er lögð fyrir reglulega í skólanum í ákveðnum árgöngum.
 • Lífsleiknitímar eru góður vettvangur til að ræða ólík viðhorf og líðan nemenda
 • og tengsl þeirra á milli.
 • Fleira má nefna eins og samtöl við nemendur/nemendaráðgjöf, sjálfstyrkingarnámskeið, ferðir/ferðalög, vinabekki og þemadaga.
 • Samvinna heimila og skóla.
 • Samstarf milli foreldra bekkjar/árgangs miðar að því að efla og styrkja samskipti og hópkennd barnanna.

Kannanir á líðan, skólabrag og viðhorfi nemenda/foreldra (Skólapúlsinn og fl.)

 

Viðbrögð við einelti milli starfsmanns og nemanda

Vakni grunur um að starfsmaður skólans leggi nemanda í einelti eða beiti hann ofbeldi skulu viðbrögð og vinnuferli vera í samræmi við gátlista skóla- og frístundasviðs vegna kvörtunar um meinta óviðeigandi framkomu starfsmanns gagnvart barni, nemanda eða ungmenni í leikskóla, grunnskóla eða frístundastarfi.

Verklag

1. Kvörtun berst til forstöðumanns stofnunar (leikskólastjóra, grunnskólastjóra, forstöðumanns frístundarstarfs) vegna framkomu starfsmanns við barn, nemanda eða ungmenni.

 2. Forstöðumaður stofnunar metur aðstæður m.t.t. næstu skrefa: o Starfsmaðurinn/barnið tekið úr aðstæðum.

o Foreldrar látnir vita af atburði ef þeir eru ekki tilkynnendur. o Foreldrar afla áverkavottorðs ef við á.

o Forstöðumaður stofnunar og/eða foreldrar tilkynna atburð til barnaverndar Reykjavíkur ef við á.

o Forstöðumaður stofnunar eða foreldrar tilkynna atburð til mannauðsstjóra skóla- og frístundasviðs (SFS) og/eða til yfirmanns viðeigandi fagskrifstofu sviðsins.

o Ef grunur er um ofbeldi eða kynferðislega áreitni skal forstöðumaður stofnunnar ávallt vísa málinu til barnaverndar, sem ákveður hvort málinu er vísað til lögreglu. Foreldrar geta alltaf kært mál til lögreglu.

3. Ef grunur er um kynferðislega áreitni leggur barnavernd áherslu á að atvikið sé hvorki rætt við barnið né starfsmanninn, fyrr en starfsmenn barnaverndar hafa talað við barnið og metið stöðuna.

 4. Mannauðsstjóri boðar fund með viðbragðsteymi SFS.

5. Málið er skráð í GoPro undir viðkomandi starfsstöð og heiti máls/kvörtun vegna framkomu starfsmanns gagnvart barni, nemanda eða ungmenni.

6. Mannauðsstjóri ákveður hver skuli vera ábyrgðarmaður máls og hverjir hafi aðgang að því.

7. Ábyrgðarmaður máls hugar að líðan starfsmanns og starfmannahópsins.

8. Ábyrgðarmaður máls kannar stöðu mála eftir 3 mánuði.

Vakni grunur um að nemandi skólans leggi starfsmann í einelti skulu viðbrögð og vinnuferli vera í samræmi við eineltisáætlun skólans þegar nemendur eiga í hlut.

 

Viðbrögð við einelti og áreitni meðal starfsmanna

Yfirlýsing

Starfsfólk Foldaskóla leggur áherslu á að skapa og viðhalda starfsumhverfi þar sem gagnkvæm virðing, heilindi og fagmannlegt viðmót er i hávegum haft. Við álítum einelti ólíðandi á okkar vinnustað. Við viljum vera virk í því að hindra einelti og grípa inní ef einelti á sér stað. Við munum taka kvörtunum vegna eineltis alvarlega, rannsaka þær gaumgæfilega og fylgja þeim eftir og gera nauðsynlegar ráðstafanir.

Skilgreiningar á einelti og áreitni

Í reglugerð nr. 1000/2004, um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, er einelti skilgreint á eftirfarandi hátt ( 3.gr.):

 „Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda leiði slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til þeirrar háttsemi sem lýst er hér að framan“.

Áhersla skal lögð á að hér verði athæfi geranda að vera síendurtekið og hafa varað í lengri tíma. Um einelti getur verið að ræða hvort sem það er ásetningur geranda eður ei. Það eru áhrif hegðunarinnar á aðra sem vega þyngst þegar metið skal hvort um einelti er að ræða eða ekki, ekki ásetningur geranda. Jafnframt segir í starfsmannastefnu Reykjavíkurborgar „Starfsmaður, sem með orðum, látbragði eða atferli, ógnar, truflar eða ögrar öðrum á vinnustað, leggur starfsmann í einelti eða sýnir honum kynferðislega áreitni, telst brjóta grundvallarreglur samskipta á vinnustað. Slík hegðun getur leitt til áminningar eða starfsmissis“.

Dæmi

Þó ómögulegt sé að setja fram tæmandi lista eru hér tilgreind dæmi um hegðun sem getur bent til eineltis eða áreitni:

 • Að starf, hæfni og verk þolandans eru lítilsvirt.
 • Misnotkun, t.d. með því að láta starfsmann sinna endurtekið verkefnum sem falla ekki undir starfssvið hans eða að láta hann hafa of fá eða of mörg verkefni. · Að gefa ekki nauðsynlegar upplýsingar, t.d. til að geta klárað verkefni.

· Starfsmaður hafður undir stöðugu eftirliti. Leitað eftir mistökum og mikið gert úr þeim þegar þau finnast.

 • Særandi athugasemdir.
 • Útilokun frá félagslegum og faglegum samskiptum. T.d. með því að heilsa ekki viðkomandi, setjast ekki hjá honum o.s.frv.
 • Árásir eða gagnrýni á einkalíf starfsmanns.
 • Fjandskapur eða þögn þegar spurt er eða fitjað upp á samtali.

· Baktal, slúður eða lygar um starfsmann.

 • Endurtekin stríðni.

Forvarnir gegn einelti og áreitni

Í Foldaskóla eru viðhafðar fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir einelti meðal starfsmanna. Má þar nefna að starfrækt eru starfsmannafélag og vellíðunarteymi þar sem hugað er að góðum starfsanda, haldnir mánaðarlegir starfsmanna- og/eða fræðslufundir, boðið upp á starfsmannaviðtöl, skipulögð móttaka nýliða og unnin aðgerðaráætlun út frá vinnustaðagreiningu Reykjavíkurborgar.

Viðbrögð við einelti og áreitni

Eineltisteymi Foldaskóla er skipað skólastjóra, aðstoðarskólastjóra og trúnaðarmanni starfsmanna/kennara.

Vakni grunur um einelti skal tilkynna það tafarlaust til skólastjórnanda eða trúnaðarmanns. Það fer eftir eðli máls hvort úrlausna er leitað innan skólans eða vísað áfram til eineltisteymis Menntasviðs Reykjavíkurborgar. Einstakir starfsmenn geta leitað beint til Menntasviðs og er þá best að hafa samband við starfsmannastjóra. Meintur þolandi eineltis þarf að samþykkja að málið verði tekið fyrir. Upplýsinga er aflað hjá samstarfsmönnum, trúnaðarmanni og öðrum sem kunna að hafa orðið vitni að eineltinu.

Eftirfarandi vinnuferli fer í gang

 • Rætt er einslega við meintan þolanda, meintan geranda og vitni. Leitað er eftir tillögum frá báðum aðilum um lausn málsins. Hugað er að líðan þeirra og athugað hvort ástæða sé til að óska eftir aðstoð sálfræðings, mannauðsráðgjafa og/eða breyta vinnufyrirkomulagi þeirra.

· Þegar niðurstaða hefur fengist er fundað aftur með sömu aðilum.

 • Ef ekki er um einelti að ræða skal kannað hvort ástæða sé til að bregðast við með öðrum hætti og huga að líðan meints þolanda og meints geranda.
 • Ef niðurstaðan er sú að um einelti sé að ræða eða alvarlega áreitni skal huga að rétti þolanda. Vinna skal aðgerðaáætlun sem miðar að því að uppræta eineltið. Skólastjóri metur hvort ástæða sé til að gerandi fái áminningu samkvæmt samþykktum Reykjavíkurborgar um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Ítarefni

 • Áreitni og einelti. Bæklingur Reykjavíkurborgar.
 • Einelti og kynferðisleg áreitni á vinnustöðum, forvarnir og viðbrögð.
 • Bæklingur frá Vinnueftirliti ríkisins.

· Gátlisti við greiningu eineltis og kynferðislegrar áreitni. Vinnueftirlitið 2008.

 • Reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað (1000/2004)

Prenta |