Gott að vita - almennar upplýsingar

Mentor – upplýsingakerfi

Í Mentor, sem er upplýsinga og samskiptakerfi á netinu, eru upplýsingar um ástundun nemenda, námsmat, heimavinnu og námsáætlanir. Einnig er þar aðgangur að tölvupósti, bekkjarlistum og ýmsu öðru sem að gagni kemur. Foreldrar/forráðamenn og nemendur fá aðgang að kerfinu með sérstöku aðgangsorði sem skólinn getur aðeins sent út í gegnum netfang. Hver einstaklingur hefur sinn aðgang. Mentor er mikilvægt hjálpartæki í samskiptum og miðlun upplýsinga milli heimila og skóla og almennt innan skólasamfélagsins . Áhersla er lögð á virka notkun kennara, nemenda og foreldra/forráðamanna á Mentor. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu kerfisins: www.mentor.is

Opnunartími

Skólahúsið og skrifstofa skólans er opinn frá kl. 7:50 til kl. 16:00 á starfstíma skóla.  Foldaskóli er einsetinn og heildstæður grunnskóli. Öll almenn kennsla fer fram í skólahúsnæðinu við Logafold en hluti íþróttakennslunnar og sundkennsla fara fram í Íþróttamiðstöðinni í Dalhúsum. Valgreinar eru að hluta kenndar í öðrum skólum.
Félagsmiðstöðin Fjörgyn er í Foldaskóla. Samkomusalur skólans er aðalsalur félagsmiðstöðvarinnar og jafnframt mötuneyti nemenda skólans.

Forföll nemenda

Forföll nemenda á að tilkynna í síma 540-7604 (sjálfvirkur símsvari) samdægurs. Forföll sem ekki eru tilkynnt verða skráð sem fjarvist.
Tilkynna þarf hvern dag fyrir sig. Foreldrar geta einnig skráð forföll á mentor.is

Slys og veikindi á skólatíma

Ef nemandi slasast eða veikist alvarlega á skólatíma er farið með hann á heilsugæslu hverfisins og haft samband við foreldra eins fljótt og auðið er.

Forföll kennara

Við skólann eru starfandi forfallakennarar en þó kemur fyrir að fella verður niður kennslu í eldri bekkjum skólans. Þess er gætt að senda yngstu börnin ekki heim fyrr en skólatíma lýkur.

Leyfi nemenda

Vegna leyfisóska er eftirfarandi haft í huga:

1. Ástundun nemanda síðustu þrjár annir. Þar er átt við mætingu og skil á verkefnum og heimanámi.
2. Fyrri leyfi á síðustu tveimur önnum eða skólaárinu.
3. Hvort forráðamaður hafi sinnt skyldu sinni vegna fyrri leyfisbeiðna, sbr. 8. gr. grunnskólalaga, þ.e. að sjá til þess að nemandi hafi unnið upp það sem hann kann að hafa misst úr námi meðan á undanþágu stóð.
Foreldrar eru beðnir að gæta hófs í umsóknum um leyfi. Þeir bera fulla ábyrgð á að ekki verði röskun á námi barna sinna vegna leyfa.

Skápar – geymslur

Nemendur 8.-10. bekkja geta fengið læstan skáp að láni gegn vægu tryggingargjaldi sem þeir fá endurgreitt að vori. Þar geta þeir geymt töskur sínar, fatnað og annað smálegt. Skólinn getur ekki tekið ábyrgð á fatnaði, skóm og öðrum lausamunum nemenda. Bent er á að heimilistrygging bætir í einhverjum tilvikum tjón á slíku að undanskilinni sjálfsábyrgð tryggingartaka.

Akstur – strætisvagnar – rútur

Nemendur sem sækja Foldaskóla fá ekki ókeypis farmiða nema vegalengdin frá heimili að skóla sé a.m.k. 1,5 km fyrir nemendur í 1.-5. bekk og 2 km fyrir nemendur í 6.-10. bekk. Nemendur sem flytja á skólaárinu en stunda áfram nám í Foldaskóla geta fengið einn strætisvagnamiða á dag út skólaárið. Aðrir nemendur eiga ekki rétt á miðum þótt þeir búi utan Foldahverfis. Vettvangsferðir á vegum skólans eru nemendum að kostnaðarlausu. Hins vegar er heimilt að taka gjald fyrir uppihald í námsferðum, að höfðu samráði við foreldra.

Vettvangsferðir og ferðalög

Vettvangsferðir og aðrar námsferðir eru mikilvægur þáttur í skólalífinu. Nemendur fara í
styttri og lengri ferðir með kennurum sínum og vinna úr þeim innan skóla sem utan. Sumar
ferðir eru bundnar við árganga eða aldurshópa og vara allt frá dagsparti til einnar skólaviku. Í
ferðum á vegum skólans gilda skólareglurnar.
Nemendur hafi það í huga að þeir eru fulltrúar heimila og skóla, virði reglur gestgjafa, sýni
kurteisi og þakki fyrir sig.

Móttaka nýbúa við skólann

Þegar beiðni um skólavist nýbúa liggur fyrir er unnið samkvæmt áætlun frá Menntasviði Reykjavíkurborgar. Þar kemur m.a. fram að umsjónarmaður nýbúafræðslu skólans boðar til fyrsta fundar með nemanda, foreldrum, umsjónarkennara og túlk, ef með þarf. Á fundinum er foreldrum kynntur „Upplýsingabæklingur fyrir erlenda foreldra grunnskólabarna." Í bæklingnum eru margar hagnýtar upplýsingar um starfsemi íslenska grunnskólans.
Á fundinum er farið yfir nauðsynlegar upplýsingar fyrir foreldra um skólann. Einnig fær skólinn upplýsingar um bakgrunn nemandans og aðstæður hans.

Móttaka nemenda sem hefja skólagöngu

Fimm ára nemendur fá bréf frá skólanum að vori þar sem þeim er boðið að koma í skólann í u.þ.b. tvær kennslustundir. Tekið er á móti nemendum og foreldrum þeirra á sal og skólastarf kynnt. Foreldrar fá bækling sem heitir „Gagn og gaman fyrir foreldra". Nemendur fara síðan í skólastofur þar sem þeir kynnast skólastarfinu. Að hausti er nemandi, ásamt foreldrum, boðaður í viðtal hjá umsjónarkennara áður en skólastarf hefst. Foreldrar hafa þá fengið sendan heim upplýsinga- og athafnalista sem þeir fylla út heima með barninu sínu og koma með í viðtalið.

Móttaka nýrra nemenda

Umsjónarkennari boðar nemanda og forráðamenn hans í viðtal og heimsókn áður en skóli hefst. Sama gildir um nemendur sem koma í skólann eftir að kennsla er hafin. Kennarar reyna eftir bestu getu að fylgjast með og stuðla að því að nemanda líði vel og myndi félagsleg tengsl.


Meðferð skólabóka og annarra námsgagna

Nemendur fá afhent námsgögn, ýmist til eignar eða varðveislu. Með námsgögnum er m.a. átt við lesbækur, vinnubækur, handbækur, hefti, laus blöð, hljóðbækur og lánsbækur. Lesbækur eru lánsbækur nema annað sé tekið fram en vinnubækur, hefti og laus blöð eru til eignar. Auk þess fá nemendur innkaupalista að hausti og eiga alltaf að mæta með nauðsynleg gögn. Innkaupalistana má einnig finna á heimasíðu skólans. Meðferð á vinnubókum hefur áhrif á vinnueinkunn sem er hluti af lokaeinkunn. Nemendur eiga að mæta með rétt námsgögn í kennslustundir og hefur það einnig áhrif á vinnueinkunn. Nemandi ber ábyrgð á því að skila lánsgögnum í jafngóðu ástandi og hann fékk þau. Ef námsgögn týnast eða eyðileggjast ber nemanda að útvega ný eða bæta samkvæmt mati.

Gæsla í frímínútum – fylgd

Frímínútur eru hluti af skólastarfi nemenda. Nemendur í 1.- 7. bekk eru úti í frímínútum. Mikilvægt er að þeir séu klæddir eftir veðri.  Þurfi nemendur að vera inni eftir veikindi er það leyfilegt í 1-2 daga og þarf þá að koma skrifleg beiðni frá foreldri þar um. Starfsmenn eru ávallt á leiksvæðinu í frímínútum.
Nemendur í 1. og 2. bekk fá fylgd skólaliða til og frá sundlaug.

Skóladagvist

Skóladagvist eða frístundaheimili er starfrækt fyrir 1.-4. bekk á starfsdögum kennara, virkum frídögum og eftir að skóla lýkur á daginn. Það er rekið af Gufunesbæ í húsnæði skólans og heitir Regnbogaland. Þar er boðið upp á fjölbreytt tómstundastarf eftir að skóladegi lýkur.

Prenta |