Uppbygging

IMG 0455xÍ Foldaskóla vinnum við eftir Uppbyggingarstefnunni (Restitution ).  Uppbyggingarstefna (Restitution) í skólastarfi er hugmyndakerfi sem í felst bæði aðferð og stefnumörkun skóla til bættra samskipta. Höfundur uppbyggingarstefnunnar er Diane Chelsom Gossen frá Saskatoon í Kanada. Hún er félagi í alþjóðasamtökum um hagnýtingu sjálfsstjórnarkenningar, skammstafað IAACT ( International Association of Applied Control Theory ).

Sjálfsstjórnarkenning kemur með vísindalega útskýringu á innri áhugahvöt. Hún hjálpar okkur að skilja, hvernig manneskjan leitast stöðugt við að ná markmiðum sínum og fullnægja þörfum sínum í síbreytilegu umhverfi.

Uppbygging leggur áherslu á jákvæð samskipti, ábyrgð og virðingu. Við leitumst við að nota aðferðir sem auðvelda barninu að þróa með sér sjálfsstjórn og sjálfsaga, þannig ýtum við undir sjálfstraust. Nemendur eru gerðir meðvitaðir um hlutverk sitt sem nemanda og hlutverk kennara.

IMG 0471Uppbygging hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og athöfnum. Aðferðin nýtist við bekkjarstjórnun þar sem allir fá að þroskast og njóta sín. Nemendur læra að þekkja tilfinningar sínar og þarfir. Kennarar leitast við að nota spurningar til að hjálpa nemendum að vinna úr erfiðum tilfinningum eins og vonbrigðum og reiði. Þeir vinna með nemendum að því að kanna hug sinn og ná jafnvægi fremur en stilla þeim upp og skamma úr þeim óþekktina eða kaupa með fortölum. Þegar einstaklingi verður á og hann brýtur reglu eða sýnir einhverjum í hópnum ranglæti er honum hjálpað til að bæta fyrir brot sitt, læra af mistökunum og vaxa af því. Spurt er bæði hvernig viljum við vera og hvað þurfum við að gera til að ná eigin markmiðum í sátt og samlyndi við samferðamenn.

Áhersla er lögð á að skólasamfélagið verði umhyggjusamt þannig að allir finni að þeir tilheyri því og öðlist tilfinninguna: Þetta er kennarinn minn, nemandinn minn, bekkurinn minn, skólinn minn. Börnin læra að þekkja þarfir sínar og hvernig þau geta sinnt þeim af ábyrgð. Þau læra að það er eðlilegt og mannlegt að gera mistök. Þegar það gerist sköpum við skilyrði til að barnið geti lagfært mistök sín, snúið aftur til hópsins og vaxið við hverja raun.

 

Prenta |