Þróunarverkefni

Þróunarverkefni um samhæft námsmat í þremur skólum í Grafarvogi hófst haustið 2012. Verkefnið hlaut styrk frá Þróunarsjóði skóla- og frístundaráðs og Endurmenntunarsjóði grunnskóla. Myndaður var stýrihópur verkefnisins og ráðinn var verkefnisstjóri.
Kveikjan að þróunarverkefninu var af tvennum toga. Fyrst er til að nefna útkomu nýrrar aðalnámskrár árið 2011 sem, ásamt grunnskólalögunum frá 2008, gerir kröfu um endurskoðun á námsmati almennt. Þá skapaði sú ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur að Foldaskóli yrði safnskóli fyrir Húsa-, Hamra- og Foldahverfi haustið 2012 aukna þörf fyrir samræmingu og samvinnu milli grunnskólanna þriggja í sunnanverðum Grafarvogi um skipulag náms og námsmats.
ÞÁTTTAKENDUR
Skólarnir sem tóku þátt í þróunarverkefninu eru þrír grunnskólar í Grafarvogi. Foldaskóli sem er grunnskóli með 500 nemendum í 1. -10. bekk, Húsaskóli sem er grunnskóli með 177nemendum í 1.-7. bekk og Hamraskóli sem er grunnskóli með 140 nemendum í 1.-7. bekk.
Árið 2012 voru nemendur á unglingastigi Hamra- og Húsaskóla fluttir yfir í Foldaskóla þegar borgaryfirvöld ákváðu að breyta Foldaskóla í heildstæðan safnskóla á unglingastigi. Jafnhliða þeirri breytingu var einhverfudeild í Hamraskóla flutt yfir í Foldaskóla. Þessi breyting er einn þáttur í þeirri ákvörðun stjórnenda skólanna að mikilvægt væri að vinna að samhæfingu á námsmati skólanna. Á þann hátt væri námsmatið mögulega skýrara fyrir foreldra og nemendur skólanna.
Starfsmenn þessara þriggja skóla eru um 133 talsins.

Hér er lokaskýrsla um starf hópsins

Prenta |