Skip to content

Umferðaröryggi

1. Við beinum þeim tilmælum til foreldra þeirra barna sem ekið er í skólann að hleypa þeim út við hringtorgið. Minnum á gangstétt ofan við innra bílastæðið til að síður sé gengið yfir planið.  Höfum það hugfast að það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

2. Umferðin umhverfis skólann er okkur ofarlega í huga á haustdögum. Þar er margs að gæta þegar fjöldi bíla kemur saman í upphafi skóladags og svo bætast við gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk. Í flestum tilfellum hefur gengið vel og allir lagst á eitt um að sýna aðgætni og tillitssemi.

Í Foldaskóla hvetjum við alla, jafnt starfsmenn sem nemendur, til umhverfisvæns ferðamáta á leið til og frá skóla. Vaxandi áhugi er á hjólanotkun sem er ánægjulegt. Þó þarf að huga að nokkrum atriðum sem þarfnast úrbóta. Fyrst ber að nefna að sést hefur til nemenda þeysast um á reiðhjólum eða rafhjólum án hjálma. Hitt er að hjólreiðamanni, sem ekki hefur náð 15 ára aldri, er ekki leyfilegt að reiða annan farþega á hjóli og þeir sem eldri eru mega aðeins reiða börn undir 7 ára aldri í þar til gerðu sæti. Í þó nokkur skipti hafa unglingar á rafhjólum tekið með sér farþega til og frá skóla og jafnvel án hjálmanotkunar. Þessu þarf að bregðast við og biðlum við því til forráðamanna að ræða þetta við börn sín.

Ef nemendur koma í skólann á hjólum eru þeir beðnir um að festa þau við hjólagrindur eða girðingu þannig að þau hefti ekki gangandi umferð. Þegar farið er frá skóla er ætlast til að ekki sé hjólað á leiksvæðum eða yfir þau heldur sé hjól leitt út af skólalóð.
Af öryggisástæðum eiga nemendur í 1.- 3. bekk ekki að koma á reiðhjólum í skólann.