Minniháttar slys og áverkar
Minniháttar slys og áverkar eru skilgreind þannig að ekki þarf að leita til læknis. Skrámur, blóðnasir, marblettir og aðrar skeinur teljast til minniháttar óhappa enda gengið út frá því að gera megi að þessum áverkum með búnaði úr sjúkrakassa í skólanum.
Sá starfsmaður skóla sem kemur fyrstur á vettvang tekur að sér stjórn. Stjórnin felst í eftirfarandi þáttum:
• Hugað er að þeim slasaða og metið hvort kalla þurfi á aðstoð eða hvort nemandinn geti farið inn inn á skrifstofu þar sem gert er að sárum hans.
• Kallað eftir hjálp ef þurfa þykir (sjá áætlun um meiriháttar slys).
Á skrifstofu skólans metur sá er þar er á vakt hvort leita eigi með hinn slasaða til hjúkrunarfræðings eða stjórnanda. Sé hjúkrunarfræðingur ekki við skal kalla eftir skólastjórnanda sem tekur þá við stjórn.
Gert er að sárum nemandans og metið hvort nemandinn geti tekið þátt í skólastarfinu það sem eftir er dagsins. Haft er samband við foreldra viðkomandi barns og þeir upplýstir um málið og þeir beðnir um að sækja barnið ef þurfa þykir.
Sá er fyrstur kom að slysinu eða hjúkrunarfræðingur/skólastjórnandi fylla út slysaskráningarblað og láta umsjónarkennara viðkomandi nemanda vita af slysinu og til hvaða aðgerða hafi verið gripið.
Hafi nemandi orðið fyrir höfuðhöggi skal láta foreldra vita strax og næstu skref ákveðin í samráði við þá þar sem heilahristingur kemur oft ekki í ljós fyrr en eftir nokkra klukkutíma. Eftirlit skal haft með nemandanum þar til hann er kominn í hendur foreldra eða annarra þeirra sem hafa umsjón með barninu.
Alvarleg slys
Alvarlega slys eru þau slys þar sem aðkoma læknis er nauðsynleg. Til alvarlegra slysa teljast t.d. brunasár, beinbrot, andlitsáverkar, tannskemmdir, þung höfuðhögg, tognanir, bakáverkar eða innvortis meiðsl/þung högg á kvið.
Sá starfsmaður skóla sem kemur fyrstur á vettvang tekur að sér stjórn á vettvangi þar til skólastjórnendur og/eða skólahjúkrunarfræðingur koma. Stjórnin felst í því að:
• Vera yfirveguð/aður og bregðast fumlaust og örugglega við aðstæðum.
• Beitið fyrstu hjálp og látið hringja í 112/sjúkrabíl ef um alvarlegt slys er að ræða.
• Yfirgefið ekki þann slasaða, sendið heldur eftir aðstoð.
• Kalla til skólastjórnanda/skólahjúkrunarfræðing (ef er á staðnum)
• Hlúa að hinum slasaða eftir því sem hægt er. Teppi og sjúkragögn eru varðveitt hjá ritara, skólahjúkrunarfræðingi og í íþróttahúsi.
• Gerið ráðstafanir til að vísa öðrum nemendum frá vettvangi.
Skólastjórnendur sjá til þess að þegar sé haft samband við foreldra og þeim gert viðvart um slysið. Þurfi nemandi að fara með sjúkrabíl á slysadeild fer starfsmaður með honum í bílnum ef foreldrar eru ekki til staðar. Starfsmaður skal bíða með nemandann hjá lækni eða á slysadeild þar til foreldrarnir koma. Starfsmaður skal greina foreldrum frá atvikinu á eins hlutlausan og nærgætinn hátt og hægt er og beina þeim spurningum til heilbrigðisstarfsmanna sem honum er ekki unnt að svara.
Umsjónarkennarar viðkomandi nemanda skulu hið fyrsta vera upplýstir um málið og ræða þeir við samnemendur hans. Mikilvægt er að ræða málið á eins hlutlausan og nærgætinn hátt og mögulegt er og að svara spurningum nemenda eins skýrt og hægt er.
Eftirmáli slyss í skólanum:
• Skólastjórnendur safna staðreyndum um slysið.
• Ef slys verður í skólaferð sjá umsjónarmenn ferðarinnar um að safna staðreyndum um slysið og upplýsa skólastjórnendur jafnóðum um gang mála.
• Skólastjórnendur virkja áfallaráð ef þurfa þykir.
• Skólastjórnendur tilkynna foreldrum viðkomandi nemenda um atburðinn.
• Farið yfir staðreyndir málsins með kennurum og starfsfólki skólans.
• Skólastjórnendur í samráði við áfallaráð ákveða hvernig tilkynna skal foreldrum nemenda um slysið.
• Áfallaráð ásamt umsjónarkennurum ræða við og vinna með nemendum sem tengjast málinu.
Skýrslugerð vegna skólaslysa, vinnuslysa og árása
Skólahjúkrunarfræðingur hefur hjá sér sérstök eyðublöð sem fylla á út þegar um skólaslys á nemendum er að ræða. Sá kennari/starfsmaður sem er vitni að slysinu fyllir út eyðublaðið með skólahjúkrunarfræðingi sem varðveitir það.
Þegar alvarleg slys verða, t.d. beinbrot, tannbrot, augnáverkar, skaði í andliti skal kalla til lögreglu vegna skýrslutöku.
Tilkynna skal til Vinnueftirlits öll vinnuslys/árásir sem valda fjarvistum starfsmanns einum degi fram yfir slysa-/árásardag
Í þeim tilvikum sem sér á starfsmanni vegna árásar skal atvikið skráð á sérstakt eyðublað sem er í vörslu skrifstofustjóra skólans.
Slysavarnir
• Til þess að vita hvernig bregðast skuli við slysum, er æskilegt að starfsfólk skólans sæki námskeið í skyndihjálp á 2-3 ára fresti.
• Í skólanum hanga uppi veggspjöld um skyndihjálp – skoðið þau og bendið nemendum á að kynna sér efni þeirra.
• Starfsfólk skal gera það sem í þess valdi stendur til að lagfæra slysagildrur en láta húsvörð vita eða skólastjórnendur ef um mikla eða flókna framkvæmd er að ræða.
Handbók um velferð og öryggi barna í grunnskólum
Á heimasíðu Námsgagnastofnunar er tengill á handbók um velferð og öryggi barna í grunnskóla. Þessi handbók er gefin út af menntamálaráðuneyti 2014.