Mat á skólastarfi
Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008, 8. kafla er fjallað um mat og eftirlit með gæðum grunnskólastarfs.
Markmið mats og eftirlits með gæðum starfsins er m.a. að veita upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun. Einnig ber að tryggja að starfsemi skólans sé í samræmi við lög og reglur. Huga þarf að gæðum náms og skólastarfs og tryggja að réttindi nemenda séu virt.
Hver grunnskóli metur með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra. Grunnskóli birtir opinberlega upplýsingar um innra mat sitt.
Sveitarfélög sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs. Þau skulu jafnframt fylgja eftir að það mat leiði til umbóta í skólastarfi ef þess þarf.
Menntamálaráðuneytið annast greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald í grunnskólum. Það stendur einnig fyrir samræmdu námsmati í grunnskólum í 4., 7. og 9. bekk.
Námsmat
Í lögum um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla er kveðið á um að skólar skuli innleiða aðferðir til að meta skólastarfið. Innra mat (sjálfsmat) er leið til að vinna kerfisbundið að gæðum og umbótum í skólastarfi ásamt því að miðla þekkingu og upplýsingum um starfið.
Innra mat Foldaskóla byggir á þeim viðmiðum og matsspurningum sem gerð er nánar grein fyrir í sjálfsmatsskýrslu skólans. Lögð er upp matsáætlun til fjögurra ára þar sem fram koma þeir þættir skólastarfsins sem áætlað er að meta á hverri önn. Gagnaöflun og matsaðferðir eru fjölbreyttar og miðast við viðfangsefni hverju sinni. Öflun gagna og tölfræðileg úrvinnsla, þegar það á við, er bæði unnin innan skólans sem og af fagaðilum utan hans. Gögnin eru rýnd og tillögur um úrbætur settar fram. Í framhaldi af því er sett fram áherslu- og úrbótaáætlun fyrir næsta almanaksár. Sú áætlun er síðan yfirfarin í lok árs og gerð grein fyrir hvernig til hafi tekist á starfsmanna- og foreldraráðsfundum.