Sérstakur stuðningur
Stefna Foldaskóla
Sérstakur stuðningur við nemendur byggir á grunnskólalögum, aðalnámskrá grunnskóla og stefnu Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um skóla án aðgreiningar. Foldaskóli er skóli án aðgreiningar, þ.e. skóli með þjónustu fyrir alla nemendur sína.
Sérstakur stuðningur við einstaka nemendur er hluti af almennu skólastarfi og er markmið hans að styðja við nemandann í skóla án aðgreiningar, tryggja honum jákvæðar námsaðstæður, besta mögulega námsárangur og stuðla að alhliða þroska bæði andlegum og líkamlegum. Leitast er við að ná þessum markmiðum með jákvæðu viðmóti og virðingu fyrir einstaklingnum um leið og lögð eru fyrir verkefni við hæfi.
Stuðningur við nemendur í almennu skólastarfi – í almennum bekk
Sérstakur stuðningur við nemendur getur falið í sér breytingar á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og kennsluaðferðum. Hann getur verið skipulagður í lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans, jafnvel alla skólagöngu hans og fer fram innan eða utan almennra bekkjardeilda.
Kennsla í litlum námshópum
Í skólanum er reynt að mæta þörfum nemenda með kennslu í smærri námshópum þar sem því verður viðkomið. Það á sérstaklega við um lestur, íslensku og stærðfræði á öllum skólastigum en í öðrum námsgreinum út frá þörfum einstaklinga.
Einstaklingsnámskrá
Gerðar eru námsáætlanir fyrir nemendur sem víkja frá hæfniviðmiðum árgangs. Áætlanirnar eru gerðar í upphafi skólaárs og endurskoðaðar eftir þörfum í samræmi við stefnur skólans um leiðsagnarnám. Ýmist eru þær fyrir einstaklinga, hópa eða sambland af hvoru tveggja. Sérkennarar/þroskaþjálfar og umsjónarkennarar fara yfir stöðu nemenda og vinna síðan áætlun í samráði við foreldra og nemendur. Einstaklingsnámskrá er gerð með hliðsjón af bekkjarnámskrá. Hún getur falið í sér námsáætlun í mörgum námsgreinum fyrir sama einstakling eða einungis áætlun í einni grein.
Atvinnutengt nám
Einstaka nemendum í 9. og 10. bekk sem ekki nýtast þau námsúrræði, sem skólinn hefur upp á að bjóða, gefst kostur á að stunda starfstengt nám í samstarfi við Vinnuskóla Reykjavíkur. Stuðningsfulltrúar koma að starfi með nemendum sem þurfa aðstoð vegna námsvanda, líkamlegrar fötlunar og atferlisvanda. Deildarstjóri stoðþjónustu metur í samstarfi við umsjónarkennara og foreldra hvaða nemendur fá slíkan stuðning og hversu mikill stuðningurinn á að vera. Það er svo í höndum kennara að hafa umsjón með hvernig stuðningurinn nýtist best í bekknum. Verksvið deildarstjóra stoðþjónustu er að hafa yfirumsjón með öllum þeim málum sem varða sérstakan stuðning við nemendur. Deildarstjóri fylgist með nýjungum í starfi og stuðlar að því að starfið sé í fyllsta samræmi við það sem best er talið þjóna nemendum með sérþarfir. Hann stuðlar að því að vel sé staðið að greiningu og gerð náms- og kennsluáætlana fyrir einstaklinga eða hópa og heldur utan um alla skráningu á sérstökum stuðningi við nemendur.
Íslenska sem annað mál
Nemendur með annað móðurmál en íslensku, sem hefja nám í skólanum, fá stuðningskennslu í íslensku sem öðru máli. Börn, sem hafa verið langdvölum erlendis en hafa íslensku sem móðurmál geta einnig fengið stuðningskennslu í íslensku ef þörf er á.
Til að meta stöðu nemenda í tungumálinu er stuðst við málkönnunarprófið Milli mála. Einnig er unnið að innleiðingu stöðumats fyrir grunnskólanemendur að sænskri fyrirmynd. Í stöðumatinu er könnuð fyrri þekking nemenda á móðurmálinu. Með niðurstöðum úr stöðumatinu er hægt að staðsetja nemendur betur og auðveldar það kennurum og skólastjórnendum að skipuleggja nám hvers einstaklings út frá styrkleikum hans og þörfum.
Aðrir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku geta einnig fengið stuðningskennslu í íslensku sem öðru máli ef þörf er talin á. Þá eru skipulagðir framhaldshópar þvert á námshópa til að mæta nemendum með ólíka stuðningsþörf.
Sjá einnig móttökuáætlun skólans.
Námsver
Við skólann eru alla jafna starfrækt tvö námsver, annars vegar á yngsta- og miðstigi og hins vegar á unglingastigi. Stuðningsþörf nemenda er ólík milli ára og ræðst það af nemendahópum hverju sinni hvert fyrirkomulag námsver er ár hvert.
Í námsverunum er unnið út frá þroska og getu einstaklinga sem þangað koma. Þarfirnar eru fjölbreyttar og lögð er áhersla á einstaklingsmiðaða nálgun í námsverum. Áhersla er á félagsfærni og almenna grunnfærni til að geta átt farsæla skólagöngu.
Stuðningsfulltrúar
Stuðningsfulltrúar koma að starfi með nemendum sem þurfa aðstoð vegna námsvanda, líkamlegrar fötlunar og atferlisvanda. Stuðningsfulltrúar vinna í nánu samstarfi við umsjónarkennara og faggreinakennar sem tengjast þeim einstaklingum eða nemendahópum sem þeir sinna. Deildarstjóri stoðþjónustu metur hvaða nemendur fá slíkan stuðning og hversu mikill stuðningurinn á að vera. Það er svo í höndum umsjónarkennara að hafa umsjón með hvernig stuðningurinn nýtist best í bekknum.
Ráðstöfun úrræða
Umsjónarkennarar sækja skriflega um sérstakan stuðning fyrir þá nemendur sem þeir telja að þurfi á sérstakri aðstoð að halda. Við val á nemendum í sérstakan stuðning er tekið mið af greiningum sem nemendur koma með inn í skólann, niðurstöðum úr greiningar- og skimunarprófum sem gerð eru í skólanum, stöðu þeirra í námi og óskum frá kennurum.
Verksvið deildarstjóra stoðþjónustu er að hafa yfirumsjón með öllum þeim málum sem varða sérstakan stuðning við nemendur. Deildarstjóri fylgist með nýjungum í starfi og stuðlar að því að starfið sé í fyllsta samræmi við það sem best er talið þjóna nemendum með sérþarfir. Hann stuðlar að því að vel sé staðið að greiningu og gerð náms- og kennsluáætlana fyrir einstaklinga eða hópa og heldur utan um alla skráningu á sérstökum stuðningi við nemendur.