Skip to content

Nemendaverndarráð

Hlutverk nemendaverndarráðs er að fylgjast sérstaklega með nemendum sem af einhverjum ástæðum líður illa eða eiga í erfiðleikum í skólanum. Nemendaverndarráð tekur sameiginlegar ákvarðanir um málefni einstakra nemenda eða nemendahópa. Því er ætlað að vera ráðgefandi um hvernig best skuli stuðlað að jákvæðu námsumhverfi og alhliða velferð nemenda.

Í nemendaverndarráði, sem kemur saman aðra hverja viku á starfstíma skóla, sitja deildarstjóri sérkennslu, námsráðgjafi, skólasálfræðingur, hjúkrunarfræðingur og deildarstjórar. Fulltrúi frá félagsþjónustu í Miðgarði sækir fundi ráðsins u.þ.b. einu sinni í mánuði. Ráðið er skipað samkvæmt heimildarákvæði í grunnskólalögum. Umsjónarkennar þeirra nemenda sem fjallað er um hverju sinni eru boðaðir á fundi ráðsins og foreldrum tilkynnt að mál barns þeirra verði tekið til umræðu. Deildarstjóri sérkennslu stjórnar fundum ráðsins og heldur fundargerðir.

Starfsaðferðir nemendaverndarráðs.
-Ef nemandi þarf að mati umsjónarkennara á aukinni aðstoð að halda vegna fötlunar eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika skal umsjónarkennari vísa málinu til deildarstjóra sérkennslu sem leggur málið fyrir nemendaverndarráð.
-Ráðið fjallar um tilvísanir í sérkennslu og önnur sérúrræði. Það leitar eftir viðbótarupplýsingum, ef með þarf, hjá umsjónarkennara, foreldrum eða öðrum aðilum er tengjast málinu.
-Nemendaverndarráð ákvarðar hvernig komið er til móts við tilvísanir. Ákveðnum aðilum innan ráðsins er falið að fylgja tilteknum málum eftir.
-Skólastjóri ber ábyrgð á starfi nemendaverndarráðs.

Þrátt fyrir að lög og reglugerðir kveði á um að sérhver nemandi eigi rétt á kennslu við hæfi í heimaskóla sínum getur þurft að leita úrræða fyrir einstaka nemendur utan skólans. Nemendaverndarráð fjallar þá um málefni nemandans og leitar leiða til lausnar á málum hans. Ráðið hefur fullt samráð við foreldra um úrræði sem það leggur til.