Skip to content

Umsjónakennarar

Hlutverk umsjónarkennara í grunnskólum

Umsjónarkennarar hafa veigamiklu hlutverki að gegna skv. 2. mgr. 13. gr. laga um grunnskóla nr 91/2008, sem fjallar um rétt nemenda:
„Hver nemandi skal hafa umsjónarkennara. Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila“

Umsjónarkennarar eru því lykilpersónur í skólastarfinu. Umsjónarkennarar geta líka vísað nemendum sínum til fagfólks innan skólans, s.s. hjúkrunarfræðings eða námsráðgjafa. Um hlutverk umsjónarkennara segir í aðalnámskrá — almennum hluta 2006 (bls. 22):

„Hann er öðrum fremur tengiliður skólans við heimilin og einnig fylgist hann náið með námi nemenda sinna og þroska og breytingum á högum og atferli nemenda sem skipt geta máli hvað varðar frammistöðu og líðan þeirra í skólanum. Hann leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar þá og ráðleggur þeim um persónuleg mál. Umsjónarkennarar og námsráðgjafar gegna að þessu leyti mjög mikilvægu hlutverki“

Umsjónarkennari er tengiliður skólans við forráðamenn nemenda. Hlutverk hans er að stuðla að góðu sambandi heimilis og skóla.

Viðtalstímar

Viðtalstímar eru ekki fastir en foreldrar/forráðamenn geta auðveldlega haft samband við kennara í gegnum síma og tölvupóst. Ef ekki næst í kennara er hægt að leggja inn skilaboð hjá ritara og hefur þá viðkomandi samband um leið og hann getur.

Nemendaviðtöl

Í viðtalstímum geta nemendur rætt við kennara um eitt og annað sem þeim þykir ekki rétt að ræða í fjölmennum hópi og kennurum gefst einnig tækifæri til að leiðbeina nemendum á persónulegum nótum. Umræðuefnin geta verið hvaðeina sem snertir dvöl barnanna í skólanum eða annað sem þeim liggur á hjarta en ekki er reiknað með að þessir tímar verði nýttir til námsaðstoðar eða beinnar kennslu.  Þess er vænst að þetta fyrirkomulag verði til þess að auka kynni nemenda og kennara, efla jákvæð tengsl þeirra og koma til móts við þörf nemenda fyrir samskipti við fullorðið fólk.

Kennarar kynna þessi viðtöl fyrir foreldrum og nemendum í foreldraviðtali.

Kennarar boða nemanda í viðtal með nokkurra daga fyrirvara svo hann geti undirbúið sig. Það er æskilegast að nemendur komi í þetta viðtal strax að loknum skóla en verði því ekki viðkomið þá þarf að taka þá út úr tíma í öðrum fögum (í samráði við viðkomandi kennara).

Í nemendaviðtölum eiga að fara fram viðræður um líðan í skóla og utan skóla.

Hugmyndir að umræðuefni:

  • Líðan í skóla
  • Áhugamál og tómstundir
  • Vinir í skóla og utan skóla
  • Skemmtilegustu stundirnar
  • Styrkleikar – í hverju ertu dugleg / duglegur
  • Langar þig að bæta þig í einhverju?
  • Hvað finnst þér mikilvægt (þarfirnar, framkoma annarra við þig og þín framkoma).
  • Óskaveröld (hvert viltu stefna?)