Skip to content

Námsmat

Námsmat

Vitnisburður við annarlok

Formlegt námsmat fer fram við hver annaskipti; þrisvar á ári.

Við lok haustannar: Munnlegur vitnisburður. Forráðamenn og nemendur mæta í viðtöl til umsjónarkennara. Gagnkvæmar upplýsingar um félagslega og námslega stöðu nemandans. Til grundvallar eru umsagnir allra fagkennara. Sérgreinakennarar eru til viðtals.

Við lok miðannar: Skriflegur og munnlegur vitnisburður. Forráðamenn og nemendur mæta í viðtöl til umsjónarkennara. Gagnkvæmar upplýsingar um félagslega og námslega stöðu nemandans. Til grundvallar eru einkunnir, gefnar í tölum og/eða umsagnir allra fagkennara. Sérgreinakennarar eru til viðtals.

Við lok vorannar: Skriflegt námsmat, afhent nemendum við skólaslit. Til grundvallar eru einkunnir (gildir fyrir 2.-10. bekk).
Við lok vorannar í 1. bekk er gefið skriflegt námsmat (umsögn) sem nemendur fá við skólaslit.

Lokamat í 10. bekk vor 2016
Eins og kunnugt er hefur orðið grundvallabreyting í hugmyndafræði námsmats frá og með vori 2016. Felst hún að meginhluta til í því að áhersla er færð á hæfni nemenda ásamt þekkingu í stað áherslu á þekkingu eins og verið hefur. Hætt verður að notast við tölukvarða og tekinn upp bókstafakvarði. Það mun taka tíma að innleiða þetta og mikilvægt að nálgast þessar breytingar mjúklega. Til að auka skilning allra sem þetta varðar höfum við í Foldaskóla ákveðið að setja tölustig á bókstafina nú í vor. Það verður aðeins gert í þetta eina sinn. Frá og með næsta skólaári verður einungis unnið með bókstafi sjá Namsmat_glaerukynning

Samræmd könnunarpróf
Samræmd könnunarpróf eru haldin í þremur árgöngum, 4. 7. og 10. bekk
í íslensku og stærðfræði auk ensku í 10. bekk. Prófin eru haldin að hausti og þeim er ætlað að meta grundvallarkunnáttu og færni. Niðurstöður eiga að vera hjálpartæki fyrir foreldra og kennara til að koma til móts við þarfir sérhvers nemanda.

Til athugunar fyrir próf
• Komið vel undirbúin; góður svefn og næring skipta máli.
• Hvorki GSM-símar, snjalltæki né önnur tæki til tónlistarspilunar eða upplýsingaöflunar eru leyfð.
• Komið með skriffæri og önnur gögn s.s. reiknivél, reglustiku, gráðuboga og hringfara.
• Gangið hljóðlega til stofu og komið ykkur strax fyrir.
• Á prófstað skal vera algjört næði.
• Nemendur hafa aðeins gögn sem þarf að nota í prófi á borðinu.
• Ef nemendur eru uppvísir að svindli er þeim vísað út, próf er ómarktækt og haft er samband heim.

Verðlaun til 10. bekkinga að vori
Verðlaun hljóta þeir nemendur sem náð hafa hæstu skólaeinkunn í eftirfarandi greinum:
íslensku, stærðfræði, náttúrufræði, samfélagsfræði, ensku og dönsku. Einnig eru veittar
viðurkenningar í öðrum greinum ef ástæða þykir til. Þá eru einnig veitt sérstök verðlaun þeim
nemendum sem sýnt hafa lofsverða frammistöðu innan skólans eða í störfum/verkefnum fyrir
hönd skólans.

Sund
Samræmdu sundstigi í 10. bekk telst ekki lokið ef nemandi hefur ekki staðist alla þætti prófsins. Próf er tekið í lok námskeiðs.

Umsögn um félags-, íþrótta-, lista- og menningarstarf á vitnisburðarblaði 10. bekkinga
Umsögn á vitnisburðarblað við útskrift 10. bekkjar fá þeir nemendur sem sýnt hafa framúrskarandi starf og frammistöðu í félags-, íþrótta-, lista- eða menningarstarfi á vegum skólans á útskriftarári. Umsjónarkennari útbýr og skráir almenna umsögn í samráði við viðkomandi félagsstarfa- eða sérgreinakennara ásamt stjórnanda. Dæmi: Seta og virk þátttaka í starfi skólaráðs og/eða nemendaráðs, góð frammistaða í keppnum og sýningum á vegum eða fyrir hönd skólans.

Íþróttamaður og íþróttakona Foldaskóla úr 8. – 10. bekk
Verðlaun og titil hljóta þeir nemendur sem íþróttakennarar telja vera til fyrirmyndar í íþróttalífi skólaársins. Valið fer fram á íþróttahátíð skólans og eru nemendur valdir út frá eftirfarandi atriðum sem teljast öll jafn mikilvæg:
• Hvetjandi leiðtogi innan hópsins
• Jákvæðni, dugnaður og samviskusemi í tímum
• Mjög góð mæting í sund- og íþróttatíma
• Góður alhliða íþróttamaður