Kennsluhættir
Siðprýði – Menntun – Sálarheill
Hlutverk skólans er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi í samvinnu við
foreldra. Frumábyrgð á uppeldi og menntun hvílir á foreldrum. Hlutverk skólans er einkum að
skapa nemendum tækifæri til náms og þroska, jafnt líkamlega, andlega og félagslega. Þetta
sameiginlega hlutverk krefst náinna tengsla, gagnkvæms trausts, upplýsingamiðlunar,
ábyrgðar og samvinnu.
Markmið skólastarfsins eru:
Að veita nemendum góða alhliða menntun og búa þá undir fullorðinsárin.
Að efla með nemendum sjálfstæða, agaða, gagnrýna og skapandi hugsun og góð
vinnubrögð.
Að efla sjálfsmynd nemenda.
Að efla siðgæðisþroska nemenda, umburðarlyndi og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.
Að nemendur öðlist þjálfun í að takast á við mismunandi aðstæður í samskiptum við ólíka
einstaklinga.
Að nemendur læri að hlusta, virða og taka tillit til skoðana annarra.
Að efla virðingu og jákvæð viðhorf nemenda til náttúrunnar, umhverfisins og alls lífs.
Að efla samhug og samstarf heimila og skóla til að ná sameiginlegum markmiðum í þágu
nemenda.
Í Foldaskóla er stefnt að því að ná sem bestum árangri í starfi svo nemendur okkar megi verða
nýtir þjóðfélagsþegnar með heilbrigð lífsmarkmið.
Nemendur Foldaskóla eiga að stunda nám sitt af kostgæfni. Hver og einn á að nýta hæfileika
sína og vitsmuni til fulls. Nemendur, kennarar og foreldrar vinna saman að þessum
markmiðum.
Skólinn er vinnustaður nemenda og þar gilda sömu reglur um mætingu, hegðun og
samviskusemi og á öðrum vinnustöðum. Námið á að vera krefjandi og virkja sköpunargáfu,
hugvit og frumkvæði nemenda.
Í skólanum á að ríkja góður starfsandi og vinnufriður þar sem nemendur, sem og aðrir, eiga að
virða sjálfsagðar og eðlilegar umgengnisreglur. Árangursríkt nám krefst næðis sem er
forsenda fyrir einbeitingu og athygli.