Hagnýtar upplýsingar
Frímínútur
Frímínútur eru hluti af skólastarfi nemenda. Nemendur í 1.- 7. bekk eru úti í frímínútum. Mikilvægt er að þeir séu klæddir eftir veðri. Þurfi nemendur að vera inni eftir veikindi er það leyfilegt í 1-2 daga og þarf þá að koma skrifleg beiðni frá foreldri þar um. Starfsmenn eru ávallt á leiksvæðinu í frímínútum.
Nemendur í 1. og 2. bekk fá fylgd skólaliða til og frá sundlaug.
Heilsugæsla
Skólahjúkrunarfræðingur er Steinunn Erla Eðvaldsdóttir
Viðvera hennar í skólanum:
mánudaga - fimmtudaga kl 8-15
netfang: foldaskoli@heilsugaeslan.is
Viðvera getur breyst öðru hvoru.
Utan þess tíma er alltaf hægt að leggja inn skilaboð hjá ritara skólans eða á heilsugæslunni.
Hjúkrunarfræðingar og læknar Heilsugæslustöðvar Grafarvogs annast heilsugæslu í Foldaskóla. Markmið heilsugæslu í skólum er að stuðla að því að börn fái að þroskast við bestu andlegu, líkamlegu og félagslegu skilyrði sem völ er á. Gott samstarf foreldra/forráðamanna og starfsfólks heilsugæslunnar er því afar mikilvægt. Ef barn þarf sérstaka umönnun eða eftirlit er forráðamönnum bent á að hafa samband við skólahjúkrunarfræðing. Starf skólahjúkrunarfræðinga byggist á fræðslu og ráðgjöf sem stuðlar að heilbrigðum lífsháttum. Hjúkrunarfræðingur vinnur í samvinnu við skólastjórnendur, kennara, skólasálfræðing og aðra sem sinna skólabörnum. Skólahjúkrunarfræðingar eru bundin þagnarskyldu.
Skólaheilsugæsla tekur við af ungbarnaeftirliti. Heilbrigðisskoðun fer fram samkvæmt tillögum frá landlæknisembættinu.
Lyf. Samkvæmt tilmælum frá landlækni þarf að tilkynna skólahjúkrunarfræðingi ef barn notar lyf að staðaldri til að tryggja öryggi við lyfjagjafir á skólatíma. Vakin er athygli á því að óheimilt er að senda börn með lyf í skólann.
Slys. Verði barn fyrir slysi í skólanum veitir hjúkrunarfræðingur eða starfsfólk skólans fyrstu hjálp. Ef á þarf að halda veitir Heilsugæslan í Grafarvogi umbeðna aðstoð. Æskilegt er að foreldrar fari sjálfir með barnið.
Fræðsla. Hjúkrunarfræðingur sinnir heilbrigðisfræðslu í samvinnu við kennara.
Á vefnum Heilsuvera.is er yfirlit yfir áherslur í starfseminni ásamt vísun í leiðbeiningar embættis landlæknis um heilsuvernd grunnskólabarna.
Áfallateymi
Við Foldaskóla er starfandi áfallateymi. Þar sitja eftirtaldir aðilar: skólastjóri, hjúkrunarfræðingur, ráðgjafi, sálfræðingur, fulltrúi kennara, skólaritari. Auk þess er kallaður til sá sem næstur stendur málinu hverju sinni. Hlutverk þess er að undirbúa viðbrögð við áföllum sem tengjast nemendum svo sem dauðsföllum í fjölskyldu, alvarlegum veikindum, sjálfsvígshótunum, slysum á skólatíma og afleiðingum náttúruhamfara. Áfallateymið sér einnig um:
- upplýsingaflæði til allra innan skólans sem tengjast nemandanum
- stuðning við kennara
- að fylgjast með að nemandinn fái allan þann stuðning sem mögulegt er að veita innan skólans, eins lengi og hann þarfnast
- aðgengilegt fræðsluefni fyrir kennara og starfsmenn um viðbrögð við áföllum og alvarlegum veikindum
- bókalista fyrir nemendur og kennara yfir barnabækur þar sem sorgin er meðhöndluð
- að sækja ýmis námskeið og fyrirlestra sem gætu nýst starfi teymisins.
Eineltisáætlun
Einelti og annað ofbeldi er ekki liðið í Foldaskóla. Markmið skólans er að öllum líði vel og finni til öryggis. Áhersla er lögð á jákvæð samskipti, virðingu og samábyrgð.
Skilgreining á einelti
Einelti er endurtekið líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi, útilokun, útskúfun og áreiti sem skapar vanlíðan - þegar einn eða fleiri níðast á eða ráðast aftur og aftur á einstakling.
Varast ber að skilgreina alla misklíð eða stríðni sem einelti en vera samt vakandi fyrir því að það þróist ekki yfir í einelti. Stríðni og einelti er helst hægt að mæla út frá þeim afleiðingum sem það hefur fyrir þolanda en ekki út frá því sem aðrir sjá.
Andlegt ofbeldi getur meitt jafn mikið og líkamlegt þótt það sé ekki sjáanlegt.
Beint einelti er sýnilegt þ.e. ekki fer milli mála hvað gerist, t.d. orð og athafnir sem sjást og heyrast s.s. árásir, hótanir, særandi orð og aðdróttanir.
Óbeint einelti er dulið þ.e. ekki sýnilegt nema við eftirgrennslan t.d. skilja útundan,
hunsa, augngotur og látbragð.
Einnig er hægt að tala um líkamlegt, munnlegt og félagslegt einelti eftir birtingarformi
þess. Tíðni slíks eineltis fer nokkuð eftir aldri og kyni gerenda og þolenda.
Viðbrögð og vinnuferli starfsfólks við samskiptavanda og einelti
Ætíð skal brugðist strax við einelti eða grun um einelti. Allir starfsmenn skólans skulu hafa afskipti af meintu eða augljósu einelti enda er slíkt ekki liðið í Foldaskóla.
Vinnuferli
1. Tilkynning
Vakni grunur um einelti skal tilkynna það tafarlaust til umsjónarkennara þess sem eineltið beinist að og skrá upplýsingarnar. Eyðublað 1
2. Upplýsingaöflun
Þegar tilkynning hefur borist umsjónarkennara aflar hann sér nánari upplýsinga um málið hjá kennurum, bekkjarfélögum og öðru starfsfólki skólans. Umsjónarkennari ræðir við þolanda og meintan geranda til að afla frekari upplýsingar og upplýsir jafnframt foreldra beggja aðila um gang mála. Umsjónarkennari skráir þessar upplýsingar. Eyðublað 2 og Eyðublað 3
3. Vinnuferli
- Liggi ljóst fyrir að um einelti sé að ræða fer ákveðið vinnuferli af stað sem miðar að því að umsjónarkennari og deildarstjóri viðkomandi stigs/námsráðgjafi vinni saman að lausn málsins. Eyðublað 4 og Eyðublað 5.
- Markmiðið er að finna leiðir í samráði við gerendur og þolendur til að öllum líði vel.
- Umsjónarkennari skráir málið í Mentor, sýnilegt skólastjórnendum og umsjónarkennara.
- Umsjónarkennari málsaðila hefur samband við foreldra/forráðamenn og óskar eftir samvinnu og stuðningi þeirra.
- Umsjónarkennari gerir öðrum kennurum og viðkomandi starfsmönnum grein fyrir málavöxtum í þeim tilgangi að tryggja öryggi og vellíðan þolanda.
- Umsjónarkennari og deildarstjóri/námsráðgjafi ræða við þolanda og gerendur.
- Þolandi er fullvissaður um að hann hafi stuðning starfsmanna skólans. Hann fær tækifæri til að lýsa framkomu, orðum/athöfnum gerenda og hvaða áhrif umrædd hegðun hafi haft á líðan hans. Hann mæti einatt skilningi á því að upplifun hans eigi fullan rétt á sér og fær leiðbeiningar um hvað hann geti gert svo sárin, sem hann hefur hlotið, grói sem fyrst. Hann ákveður, á eigin forsendum, hvenær hann er tilbúinn til að mæta gerendum.
- Geranda eru strax gefin skýr skilaboð um að einelti sé ekki liðið. Leitast er við að opna augu hans fyrir óásættanlegri framkomu í orðum og verki gagnvart þolanda, hvaða áhrif hún hafi haft á líðan hans og hvernig hann geti breytt til hins betra.
- Fundað er með þolanda og forráðamönnum og einnig er fundað með geranda og forráðamönnum. Þegar óskað er eftir að foreldar komi á fund til að ræða hugsanlegt einelti ætti alltaf að upplýsa þá um hverjir verði á fundinum.
- Foreldrar eru hvattir til að hafa einhvern með sér til halds og trausts.
- Umsjónarkennari þolanda vinnur eineltismál sem tengjast út fyrir bekkinn með viðkomandi umsjónarkennara og deildarstjóra/námsráðgjafa.
- Fundargerð er skráð og undirrituð af öllum fundarmönnum, fundargerð á að skila til eineltisteymis samdægurs og afrit sent fundarmönnum.
4. Eftirfylgni
Umsjónarkennari fylgir málinu eftir í samvinnu við deildarstjóra/námsráðgjafa með samtölum við þolanda og geranda/gerendur. Foreldrar eru upplýstir um stöðu máls innan tveggja vikna og eru síðan í reglulegu sambandi. Eyðublað 6
5. Ef eineltið hættir ekki
Umsjónarkennari hefur samband við foreldra geranda og þolanda og lætur vita að eineltið hafi ekki hætt og því sé málinu vísað áfram til nemendaverndarráðs og eineltisteymis. Eyðublað 7
Málið er komið í hendur stjórnenda sem taka ákvörðun um framhaldið.
Forvarnir gegn einelti
Í Foldaskóla er lögð áhersla á að halda uppi öflugu forvarnastarfi sem beinist að því að stuðla að góðum félagsanda í bekkjum og byggja upp traust og samvinnu milli heimila og
skóla. Nauðsynlegt er að allir sem tengjast skólanum vinni saman, þ.e. starfsmenn, nemendur og forráðamenn þeirra.
Í skólanum er haldið uppi forvarnastarfi sem miðar að því að draga úr eða koma í veg fyrir einelti. Má þar nefna:
- Uppbyggingarstefnuna sem miðar að því að kenna nemendum sjálfstjórn og sjálfsaga.
- Eineltisáætlun er fyrir hendi og endurskoðuð reglulega.
- Skýrar skólareglur.
- Allir þurfa að vera meðvitaðir um afleiðingar eineltis og samtaka í því að koma í veg fyrir það.
- Móttaka nýrra nemenda.
- Skólapúlsinn er vefkönnunarkerfi þar sem nemendur eru spurðir um líðan, skólabrag
- og viðhorf. Könnunin er lögð fyrir reglulega í skólanum í ákveðnum árgöngum.
- Lífsleiknitímar eru góður vettvangur til að ræða ólík viðhorf og líðan nemenda
- og tengsl þeirra á milli.
- Fleira má nefna eins og samtöl við nemendur/nemendaráðgjöf, sjálfstyrkingarnámskeið, ferðir/ferðalög, vinabekki og þemadaga.
- Samvinna heimila og skóla.
- Samstarf milli foreldra bekkjar/árgangs miðar að því að efla og styrkja samskipti og hópkennd barnanna.
Kannanir á líðan, skólabrag og viðhorfi nemenda/foreldra (Skólapúlsinn og fl.)
Umferðaröryggi
1. Við beinum þeim tilmælum til foreldra þeirra barna sem ekið er í skólann að hleypa þeim út við hringtorgið. Minnum á gangstétt ofan við innra bílastæðið til að síður sé gengið yfir planið. Höfum það hugfast að það læra börnin sem fyrir þeim er haft.
2. Umferðin umhverfis skólann er okkur ofarlega í huga á haustdögum. Þar er margs að gæta þegar fjöldi bíla kemur saman í upphafi skóladags og svo bætast við gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk. Í flestum tilfellum hefur gengið vel og allir lagst á eitt um að sýna aðgætni og tillitssemi.
Í Foldaskóla hvetjum við alla, jafnt starfsmenn sem nemendur, til umhverfisvæns ferðamáta á leið til og frá skóla. Vaxandi áhugi er á hjólanotkun sem er ánægjulegt. Þó þarf að huga að nokkrum atriðum sem þarfnast úrbóta. Fyrst ber að nefna að sést hefur til nemenda þeysast um á reiðhjólum eða rafhjólum án hjálma. Hitt er að hjólreiðamanni, sem ekki hefur náð 15 ára aldri, er ekki leyfilegt að reiða annan farþega á hjóli og þeir sem eldri eru mega aðeins reiða börn undir 7 ára aldri í þar til gerðu sæti. Í þó nokkur skipti hafa unglingar á rafhjólum tekið með sér farþega til og frá skóla og jafnvel án hjálmanotkunar. Þessu þarf að bregðast við og biðlum við því til forráðamanna að ræða þetta við börn sín.
Ef nemendur koma í skólann á hjólum eru þeir beðnir um að festa þau við hjólagrindur eða girðingu þannig að þau hefti ekki gangandi umferð. Þegar farið er frá skóla er ætlast til að ekki sé hjólað á leiksvæðum eða yfir þau heldur sé hjól leitt út af skólalóð.
Af öryggisástæðum eiga nemendur í 1.- 3. bekk ekki að koma á reiðhjólum í skólann.
Tapað-fundið
Hjá því verður ekki komist að á hverju ári verður eftir fjöldi óskilamuna í skólanum. Foreldrum og nemendum er bent á að snúa sér til starfsmanna skólans og/eða íþróttahúss (sundlaugar) í leit að týndum eigum.
Ástæða er til að ítreka mikilvægi þess að föt og aðrar eigur nemenda séu vel merkt eiganda með nafni og símanúmeri.
Í skólanum er lögð áhersla á snyrtimennsku og góða umgengni
ásamt því að sýna eigin eigum og annarra virðingu.
Foreldrar/forráðamenn geta sent tölvupóst til skólans og óskað eftir því að hlutir sem týnast verði auglýstir hér á síðunni.