Fréttir af skólastarfinu

LegomyndHér við Foldaskóla eru fjölbreytt valfög í boði fyrir unglingana. Meðal þess sem nemendur geta valið er Leiklist-Skrekkur og First League Lego en hvort tveggja er liður í undirbúningi fyrir stórar keppnir.

Hápunktum var náð þegar nemendur úr Skrekkshópnum stigu á stóra sviðið í Borgarleikhúsinu í undankeppni miðvikudaginn 8. nóvember og nemendur úr Legohópnum á svið í Háskólabíói laugardaginn 11. nóvember. Báðir hópar höfðu lagt hart að sér við undirbúninginn, lögðu allt sitt í verkin og stóðu sig með prýði.

FLL-keppnin er opin fyrir alla skóla á landinu og gefur sigursætið þátttökurétt í alþjóðlegri keppni með sama nafni. Fjórir þættir eru metnir sérstaklega í keppninni: Vélmennakapphlaup, hönnun vélmennisins, liðsheild og rannsóknarritgerð, þetta snýst um meira en bara að kubba með Lego. Lið Foldaskóla lenti í 7. sæti af 20. liðum sem tóku þátt en telst það vera mjög góður árangur enda afar stutt á milli liða nema tveggja efstu. Þetta er í 4. sinn sem Foldaskóli á lið í keppninni og vonumst við að sjálfsögðu til að eiga aftur lið á næsta ári.

SkrekksmyndSkrekkshópurinn okkar var svo annar af tveimur stigahæstu skólunum í undankeppninni á miðvikudag og vann sér þar með þátttökurétt í úrslitum. Skrekkur er einungis fyrir grunnskólana í Reykjavík en metþátttaka var í ár, 26 skólar, og því virkilega vel gert að vera meðal 8 efstu. Úrslitin voru sýnd í beinni útsendingu mánudagskvöldið 13. nóvember og stóðu nemendur okkar sig með mikilli prýði sem fyrr og hlutu lof fyrir. Þetta er í annað skiptið á þremur árum sem Foldaskóli kemst í úrslit og stefnum við að sjálfsögðu þangað aftur á næsta ári enda mikil stemning meðal unglinganna eftir þennan frábæra árangur.
Við erum að sjálfsögðu gríðarlega stolt af frammistöðu nemenda okkar sem sýndu af sér liðsheild, samvinnu í verki, góðan keppnisanda og fyrirmyndarhegðun.
Bkv.
Skúli

Prenta |