Skip to content

Fardeild

Fardeild er sérhæft úrræði sem þjónar grunnskólunum í borgarhluta 4 (Grafarvogi og Kjalarnesi). Ráðgjafar í Fardeild veita ráðgjöf og vinna með nemendur í náms- og hegðunarerfiðleikum sem og nemendur með atferlisvanda og/eða geðraskanir.

Ráðgjafar deildarinnar vinna með nemandann í skólaumhverfi hans og með samþykki foreldra/ forráðamanna ásamt því að vera í nánu samstarfi við aðra fagaðila viðkomandi skóla. Vinna með hvern nemanda getur varað í mislangan tíma eftir aðstæðum. Að lokinni vinnu í heimaskóla nemandans tekur við eftirfylgni og ráðgjöf um hvernig best verði stuðlað að áframhaldandi framförum eða viðhaldið þeim árangri sem hefur áunnist. Í einstaka tilfellum mæla ráðgjafar Fardeildar með annars konar úrræðum sem gætu reynst áhrifaríkari ef staða nemanda er á þann veg að heimaskóli hefur ekki tök á að sinna þörfum hans.
Inntökuteymi fjallar um fyrirliggjandi umsóknir og forgangsraðar. Sækja verður um þjónustu deildarinnar á sérstökum eyðublöðum.

Við deildina starfa:

Lína Dögg Ástgeirsdóttir

lina.dogg.astgeirsdottir@reykjavik.is (664 8184)

Guðrún Ólafsdóttir

gudrun.olafsdottir@reykjavik.is  (664 8181)

 

MARKMIÐ FARDEILDARINNAR:
• Að bæta hegðun, líðan og félagslega færni nemandans í skólaaðstæðum.
• Að miðla þekkingu og þróa árangursrík vinnubrögð í hefðbundnum skólaaðstæðum.
• Að aðstoða heimaskóla í samráði við foreldra/forráðamenn nemandans við að leita annarra úrræða sé þess talin þörf.

 

SKJÓLSTÆÐINGAR:
Nemendur sem eiga í náms- og hegðunarerfiðleikum sem og nemendur með atferlisvanda og/eða geðraskanir (sbr. greiningar, skimanir athuganir á eðli vanda). Í öllum tilvikum þarf heimaskóli að sýna fram á að reynt hafi verið til þrautar að leysa vandann án þess að viðunandi árangur hafi náðst. Einnig getur verið um tímabundna aðstoð að ræða vegna nemenda sem koma úr sérúrræðum s.s. Brúarskóla – t.d. aðstoð við að aðlagast heimaskóla á ný.

INNTÖKUSKILYRÐI:
Sækja þarf um á sérstöku eyðublaði  (hægt að skrifa stafrænt)sem finna má á heimasíðu Foldaskóla. Þar skulu færð rök fyrir nauðsyn sérhæfðrar aðstoðar og umsókn þarf að vera undirrituð af skólastjóra heimaskóla og foreldri/forráðamanni nemandans. Miðað er við að nemandinn eigi við atferlisvanda og/eða geðröskun að stríða. Inntökuteymi fjallar um allar umsóknir og forgangsraðar. Umsóknir skulu ætíð kynntar á fundum nemendaverndarráðs heimaskóla til að tryggja eðlilega samfellu og samstarf milli fagaðila innan hverfis, þ.e. milli sérfræðiþjónustu Miðgarðs, ráðgjafa Fardeildar og fagfólks innan skóla.

VINNUFERLI:
Eftir að umsókn hefur verið samþykkt á fundi inntökuteymis setur ráðgjafi deildarinnar sig í samband við heimaskóla nemandans. Í byrjun fundar ráðgjafi með fagfólki skólans og kynnir sér fyrirliggjandi gögn um vanda nemandans. Að því loknu tekur við vettvangsathugun þar sem ráðgjafi deildarinnar fylgist með nemandanum í skólaaðstæðum til frekari glöggvunar á vandanum. Í kjölfarið kemur ráðgjafi með tillögur að leiðum til lausnar og vinnur í samráði við skóla að því að koma á breytingum sem geta leitt til árangurs fyrir nemandann sem í hlut á.
Vinna á vettvangi getur spannað mislangan tíma eftir aðstæðum. Æskilegt getur verið að vinna með nemanda í nokkrar vikur samfellt, gera síðan hlé og taka svo upp þráðinn að nýju í einhvern tíma auk viðaminni eftirfylgni svo sem kostur er.
Að lokinni vettvangsvinnu er skýrslu um starfið með nemandann skilað til heimaskóla.
Nauðsynlegt er að heimaskóli leggi til athvarf fyrir ráðgjafa deildarinnar þann tíma sem hann er við störf í viðkomandi skóla.
Ráðgjafi Fardeildar leitast við að fá sem gleggsta mynd af þeim vanda sem um ræðir í hverju tilviki fyrir sig út frá sjónarhorni barnsins, kennarans og foreldris/forráðamanns.
Samstarf er haft við aðrar stofnanir eftir því sem við á svo sem Miðgarð, heilsugæsluteymi og/eða Brúarskóla.