Áhersluþættir og þróunarverkefni
UM SKÓLA Á GRÆNNI GREIN - GRÆNFÁNANN
Umhverfisstarf í Foldaskóla hófst með skipulögðum hætti árið 2005. Fyrsti Grænfáninn var dreginn að húni í nóvember 2006, síðan 2008, 2010, 2013, 2015, 2017, 2019 og nú síðast 2021. Nú er því komið að umsókn um Grænfánann til næstu tveggja ára. Grænfáninn er tákn um virkt umhverfisstarf og er alþjóðlegt umhverfisverkefni þar sem rík áhersla er lögð á lýðræði, þátttöku og virkni.
Í Foldaskóla er starfandi Umhverfis- og heilsuráð sem skipað er fulltrúum nemenda (5. -10.b) og starfsmanna. Auglýst er eftir fulltrúum í ráðið að hausti.
Unnið er sameiginlega með markmið Grænfánans og þróunarverkefnisins Heilsueflandi skóla.
Mikilvægt er að styrkja fyrri umhverfis- og heilsumarkmið þar sem margir nýir nemendur og starfsmenn hafa bæst í hópinn. Í grænfánaskóla er m.a. hugsað um nýtni og virðingu fyrir hvert öðru, umhverfinu og náttúrunni. Við hendum t.d. ekki pappír í ruslið heldur fer hann í flokkun, komum með hollt nesti í margnota umbúðum, finnum nýjar umhverfisvænar lausnir, göngum eða hjólum í skólann með hjálm á höfði. Samvinna allra innan skólans og við heimilin auka líkurnar á öflugri og menntandi umhverfis- og heilsustefnu og er leiðin að endurnýjuðum Grænfána. Hér eru umhverfis- og heilsumarkmið Foldaskóla 2014-2015.
Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga skrefin sjö. Þegar því marki er náð fá skólarnir leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö ár en sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.
Markmið verkefnisins er að:
• bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku.
• efla samfélagskennd innan skólans.
• auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan.
• styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við stjórnun skólans þegar teknar eru ákvarðanir sem varða nemendur.
• veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál.
• efla alþjóðlega samkennd og tungumálakunnáttu.
• tengja skólann við samfélag sitt, fyrirtæki og almenning.
Landvernd
Grænfánaverkefninu á Íslandi er stýrt af Landvernd sem er aðili að alþjóðlegu samtökunum FEE. Stýrihópur um Grænfána er Landvernd til fulltingis um allt sem viðkemur verkefninu.