Skip to content

Nemendaverðlaun skóla- og frístundaráðs

Nemendaverðlaun  skóla- og frístundaráðs voru afhent við hátíðlega athöfn í Rimaskóla í gær og var þetta í 20. skipti sem þau eru afhent. Hver skóli í Reykjavík má tilnefna einn nemanda til verðlaunanna en hægt var að tilnefna fyrir t.d. góðan námsárangur, góðar framfarir, virkni í félagsstarfi, að vera jákvæð fyrirmynd, listsköpun, félagslega færni eða hvað annað sem nemandinn hefur til brunns að bera í skólastarfinu.

Fulltrúi Foldaskóla þetta árið var Herdís Hörn Eggertsdóttir, nemandi í 10. bekk, en í umsögninni með tilnefningunni kemur fram að Herdís Hörn er áhugasöm, með jákvætt hugarfar og leggur sig alltaf einstaklega vel fram um öll verkefni og vinnu í náminu. Hún er ávallt góð við samnemendur sína, kemur vel fram við alla, dugleg, hjálpsöm og getur unnið með öllum. Hún sýnir öllum virðingu og tillitssemi en stendur þó á sínu og kemur sínum skoðunum á framfæri. Hún nýtur mikillar virðingar í nemendahópnum og líta aðrir upp til hennar, öðrum nemendum virðist líða vel í návist hennar og sækja í að vinna með henni.

Við óskum Herdísi Hörn að sjálfsögðu innilega til hamingju.

Frétt um afhendinguna má lesa hér