Skip to content

Ruslasöfnun skólaárið 2018-2019

Í ágúst byrjaði 3.ERV að safna rusli á leið í skólann og á skólalóð. Við ákváðum strax í haust að reyna að leggja okkar af mörkum og taka a.m.k. eitt rusl á leiðinni í skólann með okkur og setja í ruslatunnu sem við svo vigtuðum og flokkuðum í lok hvers mánaðar. Það er gaman að segja frá því að við söfnuðum 27.464 kg af rusli og í því voru verðmæti (flöskur og dósir) sem við leystum út og fengum úr þeim rúmar 2700kr. Okkur fannst merkilegt að þegar við vorum að spá í kílófjöldanum vorum við búin að tína upp sem samsvarar u.þ.b. þyngd einum þriðjabekkings og „henda í ruslið“. Þegar við fórum svo að hugsa um hvað átti að gera við krónurnar komu upp margar skemmtilegar hugmyndir en að lokum eftir lýðræðislega kosningu ákváðu krakkarnir að kaupa hænu fyrir þá sem minna mega sín í Afríku. Við getum verið stolt af framtíðinni með þessa krakka á plánetunni og segja má með sanni að þarna hafi þau verið með hugsunina EIN JÖRÐ FYRIR ALLA í anda Grænfánans og gert mörg góðverk í þessari tínslu.